Site Logo

Mótaraðir

Mótaraðir

EIMSKIPSMÓTARÖÐIN - "Mótaröð þeirra bestu"

Er mótaröð fyrir bestu kylfinga landsins og til að fá þátttökurétt þarf að uppfylla ákveðin forgjafar takmörk en einnig getur staða á stigalista ráðið um hvort leikmenn fái boð til þátttöku á einstökum mótum.

Hvert keppnistímabil telur alls 8 mót en stigalisti er uppfærður að loknu hverju móti sem sýnir stöðu leikmanna. Í lok hvers tímabils hljóta efstu kylfingar, í hvorum flokki fyrir sig, titilinn stigameistarar GSÍ.

Mótaröðin er samstarfsverkefni Golfsambands Íslands, golfklúbba landsins og góðra samstarfsaðila en mótaröðin hefur vaxið hratt á undanförnum árum, bæði í umgjörð og styrk keppenda.

Mótaröðin hefst í september ár hvert með tveimur haustmótum og líkur ári síðar í ágúst með lokamóti.

Síðustu fjögur mót hvers tímabils eru nefnd “final four” en til að komast inn í Íslandsmótið í holukeppni (5) þurfa leikmenn að vera í 32 efstu sætum á stigalista karla og 24 efstu sætum á stigalista kvenna til að fá þátttökurétt í mótinu. 
Haldinn er sérstakur stigalisti yfir stöðu leikmanna í aðdraganda þessa móts ár hvert en stigalistann má sjá á heimasíðu www.golf.is

Bæði Borgunarmótið (Hvaleyrabikarinn) og Securitas mótið (Grafarholtsbikarinn) takmarka  fjölda þátttakenda. Tekið er mið af stigalistum og síðan hefur mótshaldari ákveðinn fjölda sæta í mótið, samkvæmt reglugerð mótsins. 
Allir sem hafa keppnisrétt fá sent boð frá viðkomandi mótshaldara sent til sín.
Allar reglugerðir má sjá á heimasíðu GSÍ.

Íslandsmótið í golfi hefur verið hátindur tímabilsins en þar er leikið um Íslandsmeistaratitilinn í höggleik sem er án efa eftirsóttasti titill sem völ er á í íslensku golfi.

Þannig má segja að til að komast inn í síðustu fjögur mótin þarf leikmaður ekki einungis lága forgjöf heldur einnig að vera búinn að tryggja sér gott sæti á stigalistanum með þátttöku í haust- og vormótum fyrir þessi síðustu fjögur mót tímabilsins.

Ákveðið hefur verið að auka verðlaunafé stigameistara í hvorum flokki umtalsvert. Stigameistarar hvors flokks árið 2016 fá 500.000 kr. í verðlaun séu þeir atvinnumenn. 
Standi áhugakylfingur uppi sem sigurvegari verða verðlaun samkvæmt reglum um áhugamennsku réttindi.

EIMSKIPSMÓTARÖÐIN  - Dagskrá 2017

mót 2016
02. september Nýherjamótið. GV, Vestmannaeyjavöllur (1).

19. september  Honda Classic mótið. GL, Garðavöllur, Akranesi (2).


mót 2017

19. maí GS - Egils Gull Mótið (3).

02. júní GB - Símamótið (4).


- final four -

23. júní GV - KPMG bikarinn - Íslandsmótið í Holukeppnin (5).

20. júlí GK - Eimskip - Íslandsmótið í golfi (6).

28. júlí GK - Borgunarmótið þar sem leikið er um Hvaleyrabikarinn (7).

18. ágúst GR - Securitasmótið þar sem leikið er um Grafarholtsbikarinn (8) .


Lokahóf og verðlaunaafhending þar sem stigameistarar verða krýndir er haldið strax eftir að keppni lýkur á lokamótinu. 

Nánari upplýsingar um mótin má finna á www.golf.is

Til mikils er að vinna en verðlaun á mótaröðinni eru glæsileg og umgjörð mótanna er með því besta sem gerist ásamt því að afreksstjóri GSÍ fylgist vel með árangri leikmanna á Eimskipsmótaröðinni og styðst við það í vali sínu á leikmönnum sem sendir eru í verkefni erlendis á vegum GSÍ.

Golfsamband Íslands vill koma fram þökkum til allra þeirra sem koma að mótahaldi GSÍ. Mótaröð sem þessi er ekki möguleg án góðrar samvinnu golfklúbba, dómara, samstarfsaðila og GSÍ.

 


ÍSLANDSBANKAMÓTARÖÐIN  - “Þar sem stjörnur verða til”

Mótaröðin er fyrir framtíðar kylfinga 21 ára og yngri sem komnir eru með reynslu af keppnisgolfi í sínum heimaklúbbi, Áskorendamótaröð Íslandsbanka og tilbúnir að taka næsta skref. 

Mótaröðin inniheldur alls 6 mót á hverju tímabili og haldinn er sérstakur stigalisti yfir stöðu leikmanna á mótaröðinni sem er uppfærður eftir hvert mót.

Í lok tímabils er efstu leikmönnum hvers aldursflokks veitt verðlaun fyrir stigameistara titil GSÍ.

Mótaröðin er samstarfsverkefni Golfsambands Íslands, Íslandsbanka þeirra golfklúbba sem halda mótin, en mótaröðin hefur vaxið hratt á undanförnum árum bæði í umgjörð og styrk keppenda.

Alls verða mótin sex líkt og undanfarin ár í elstu aldursflokknum verða leiknar 54 holur á þremur keppnisdögum að undanskildu Íslandsmótinu í holukeppni en þess er krafist vegna reglna um heimslista áhugamanna. 

Elstu aldursflokkarnir hefja því keppni einum degi fyrr en aðrir keppendur. 

Alls eru keppnisflokkarnir fjórir hjá báðum kynjum á mótaröðinni, 19-21 ára, 17-18 ára, 15-16 ára og 14 ára og yngri.

 

ÍSLANDSBANKAMÓTARÖÐ - Dagskrá 2017

26. maí - GHR (1).

09. júní - GS (2).

16. júní - GG -  Íslandsmótið í holukeppni (3).

14. júlí - GL - Íslandsmótið í Golfi (4).

28. júlí - GA (5).

25. ágúst - GKG (6).

Strax í kjölfar lokamóts mótaraðarinnar er haldin uppskeruhátíð þar sem verðlaun eru veitt fyrir stigameistara tímabilsins og aðrar viðurkenningar veittar.

Mótaskrá,stigalista og reglugerðir einstakra móta er að finna á heimasíðu GSÍ

Landsliðsþjálfari fylgist vel með leikmönnum sem leika á þessari mótaröð í leit sinni að framtíðar leikmönnum fyrir þau landsliðs verkefni sem tekið er þátt í á hverju ári.

 


ÁSKORENDAMÓTARÖÐ ÍSLANDSBANKA  - “Það er gaman í golfi”

Leikfyrirkomulag mótaraðarinnar er eftir alþjóðlegri fyrirmynd unglinga mótaraðar fyrir ungra kylfinga. 

Þessi mótaröð er hugsuð sem fyrstu skref og stuðningur við keppnisþátttöku væntanlegra framtíðarkylfinga. 

Hér á að vera gaman á vellinum og aðaláherslan lögð á að læra leikinn og mismunandi leikform hans. Þjálfarar og foreldrar eru hvattir til þess að taka virkan þátt og gera þessi mót sem skemmtilegust fyrir þátttakendur með leiðbeinandi og jákvæðu hugarfari í kringum umgjörð móta. 

Helstu atriði sem lagt verður upp með:

Ræst er út samtímis af öllum teigum á tveimur tímasetningum fyrir og eftir hádegi. Ef fjöldi þátttakenda fer yfir 54 verður ræst út með hefðbundnum hætti. 

Kylfuberar eru leyfðir. Sjá almennar reglur um kylfubera.

Höggleiks afbrigði: eftir 9 högg er skylda að taka upp og skrifa 10 högg.

Í yngsta flokknum skal fallreitur vera flatarmegin þegar slegið er yfir vatnstorfæru.

Í yngsta flokknum, ef bolti týnist er lausnin eins og um hliðarvatnstorfæru væri að ræða.  Eitt högg í víti þar sem boltinn fór inn í runna eða þ.h. og leikið áfram.

Mótin eru alls 6 talsins á hverju ári og eru leikin á glæsilegum 9. holu völlum um land allt.

ÁSKORENDAMÓTARÖÐ ÍSLANDSBANKA - Dagskrá 2017

27. maí - GOS (1).

10. júní - GSG (2).

17. júní - GHG (3).

13. júlí - GL (4).

29. júlí -  GA (5).

26. ágúst - GSE (6).

Keppt er í flokkum flokkum beggja kynja 10 ára og yngri, 12 ára og yngri, 14 ára og yngri og 15-18 ára

Allir keppendur mótsins fá viðurkenningarskjal að leik loknum en einnig verða veitt aukaverðlaun fyrir 1.- 3. sæti í öllum aldursflokkum beggja kynja. 

Verðlaun verða veitt í hverjum aldursflokki fyrir sig eftir að keppni lýkur í viðkomandi flokki/móti og keppendum verður boðið upp á grillaðar pylsur og drykk að leik loknum.